Myndir og minningar frá ferð nemenda á fyrsta ári í framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri
Myndir og texti: Gísli Sverrisson
Aðdragandi ferðar
Dagana 30. janúar til 2. febrúar 1973 fór hópur fyrsta árs nemenda úr framhaldsdeild Bændaskólans á Hvanneyri til Vestmannaeyja til björgunarstarfa. Eldgos hafði þá staðið í viku, aska og hraun ógnuðu bænum.
Á þessum síðum eru myndir sem Gísli Sverrisson tók í þessari ferð. Einnig eru birtar glefsur úr dagók hans ferðadagana og dagana fyrir og eftir. Skýringar eru skrifaðar 42 árum síðar sem og annar texti.
Myndin hér að ofan er tekin í september 2012, tæpum 40 árum eftir gos. Eldfell, gígurinn sem lengst gaus, sést vel og hluti af hrauninu. Fyrsta myndin er tekin um borð í varðskipinu Óðni aðfaranótt 31. janúar utan við Vestmannaeyjahöfn.
Gosið hófst 23. janúar, rétt um viku áður en umrædd ferð var farin. Úr dagbók þann dag:
Jónatan vakti okkur upp úr kl. 7 og kvað eldgos í Helgafelli í Vestmannaeyjum, rétt við kaupstaðinn. Væru margir vestmannaeyingar á leið til lands. Var þetta staðfest í útvarpi. Gosið hófst um kl. 2 og hófust þá þegar flutningar fólks frá Eyjum. Voru 4 af 5 eða 6 þús. íbúum farnir um kl. 7 og aðrir að fara. Enginn meiddur. Fólkið er flutt með bátum og flugvélum, en gossprungan endar um 300 m frá flugbrautinni sem gæti því lokast. Hér voru menn mjög annarshugar í skólanum og var meir fylgst með útvarpi en kennara.
Jónatan Hermannsson var þá nemandi á lokaári og því ekki í þeim hópi sem hér er sagt frá. Hann fór nokkrum dögum seinna með sínum hópi og hefur gert þeirri för góð skil á fésbók. Meira úr dagbók þessa dags:
Útvarpið flutti nær stöðugt fréttir af fólksflutningum til Reykjavíkur og frá gosinu, sem var í um 2000 m langri sprungu. Hún var um 300 m frá sumum húsunum. Hraunið rann að mestu beint í sjó og hafði ekkert hús eyðilagst en sum tæmd öllu fémætu. Um 100 manns eru nú í Eyjum.
Úr dagbók 24. janúar:
Í kvöld sýndi Trausti nokkrar myndir frá Vestmannaeyjum til að við gætum betur skilið ástandið þar nú. Um hádegið gaus að mestu úr einum gíg en um kl. 13 hófst gos á nýjum stað. Stafar mannvirkjum nokkur hætta af því gosi. Í morgun brann eitt hús við gosstöðvarnar og önnur seinna, samtals 5 hús. Hraunið nær að vegg eins hússins. Margir bílar hafa verið fluttir til lands í dag. Einnig er verið að skipa út fiski úr frystihúsinu.
Trausti Eyjólfsson, húsvörður með meiru, hafði búið í Eyjum í mörg ár en komið til starfa á Hvanneyri um haustið. Fjölskylda hans var þó í Eyjum þar til gosið hófst.
Úr dagbók 25. janúar:
Magnús Jónsson fór í dag áleiðis til Eyja ásamt Trausta, sem nú er að flytja fjölskyldu sína hingað. Magnús fór til að aðstoða við að koma kindum föður síns í land en Trausti að huga að húsi sínu og eigum. Gosið er stöðugt og verður útlitið svartara með hverjum degi. Höfnin getur eyðilagst þó húsin standi og eru þau þá lítils virði. Milli 15 og 20 hús hafa brunnið eða lent undir hrauni.
Magnús Jónsson þáverandi skólastjóri á Hvanneyri er Vestmannaeyingur og þar bjó faðir hans með kindur þegar gosið hófst.
Myndin er tekin í skoðunarferð að gosstöðvunum að kvöldi 31. janúar.
Úr dagbók 26. janúar:
Vindur snéri til suðaustan áttar og lagði mikla ösku yfir byggðina í Eyjum, eða það sem einu sinni var byggð. Mörg hús eru hálf á kafi í ösku og götur ill- eða ófærar. Stöðugt er verið að tæma hús og koma verðmætum í land. Óttast er um höfnina og vatnsleiðsluna vegna hraunrennslis í sjó.
Og 27. janúar:
Stöðugt er fylgst með gosinu í Eyjum. Þar var í dag öskufall og um 20 m skyggni, rigning og hvasst. Mörg hús brunnu og önnur hurfu undir ösku og hraun. Þannig er álitið að um 100 hús séu horfin. Stöðugt er verið að koma verðmætum í land. Menn verða stöðugt svartsýnni um byggð framvegis í Eyjum.
Þegar þetta er skrifað er nýlokið miklu eldgosi í Holuhrauni. Þar var mönnum haldið í mikilli fjarlægð af öryggisástæðum. Ef til vill eru aðstæður ekki sambærilegar en þarna fóru menn eins nærri gígnum og þeir þorðu. Hver og einn með sín viðmið.
Haldið af stað í björgunarleiðangur.
Úr dagbók 30. janúar:
Um kl. 12 skaust Magnús Jónsson inn í lífeðlisfræðitíma og sagði að okkar aðstoðar væri þörf í Eyjum. Allir í Framhaldsdeild I vildu fara. Fleiri þurfti ekki. Við áttum að mæta á vissum stað í Reykjavík sem fyrst. Strax eftir matinn lagði ég af stað ásamt Tóta, Gulla og Sig. J. og kom heim til Tóta um hálf þrjú. Þar var okkur vel tekið að vanda. Eftir nokkra snúninga í bænum var okkur sagt að lagt yrði af stað með bíl úr bænum kl. 22 til Þorlákshafnar. Við Gulli biðum heima hjá Tóta. Við áttum að fara með bát frá Þorlákshöfn en hann var ekki kominn. Við fórum því með Óðni (varðskipi) um kl. 00:30. Veður var gott og „Afi“ einn varð sjóveikur. Komumst við í land um kl. 4 og sváfum til kl. 8. Gosið sást frá Þorlákshöfn og alla leið til Eyja. Var það stórkostlegt að sjá frá hafnarmynninu.
Eldur, aska og eyðilegging.
Fyrir þá sem ekki þekkja er Tóti Þórhallur Hauksson, Gulli heitir Gunnlaugur Júlíusson og Sig. J. er Sigurður Jarlsson. Sá sem nefndur er Afi er Þórólfur Sveinsson.
Það er vert að leiða hugann að því að þegar hér er komið sögu eru aðeins 7 dagar frá upphafi eldsumbrotanna. Fjarskiptamöguleikar gjörólíkir því sem nú bjóðast. Talsvert skipulag er þó komið á björgunarstörf. Þótt ferðaplön breyttust gekk allt upp.
Úr dagbók 31. janúar:
Við vorum vaktir kl. 8, fengum hjálma, gleraugu og skóflu. Með það fórum við út og niður í slipp, en við höfðum sofið í húsi við slippinn. Verkefni okkar var að grafa dráttarbrautina upp úr gjallinu sem var um 40-100 cm þykkt. Ásamt Framhaldsdeild I unnu að þessu nokkrir menntaskólanemar úr Hamrahlíð og iðnskólanemar, alls um 35 manns. Að auki voru menn úr slippstöðvum í landi. Þetta var mikið verk en vannst vel því margar hendur voru á lofti. Við höfðum að mestu lokið mokstri um kvöldmat en verið var að laga brautina. Um kvöldið skoðuðum við gosstöðvarnar og lituðumst um í bænum sem var hálfur á kafi í ösku og mannvirki illa farin. Um kl. 22 hófum við mokstur að nýju og lögðum síðustu hönd á það verk. Það tók um klukkustund. Á flóði kl. 4 um nóttina átti að setja einhverja af bátunum á flot. Er óvíst hvort okkar verður þörf við það verk.
Um kvöldið gerðu margir hlé á björgunarstörfum til að líta þetta sjónarspil nátturunnar augum. Upplifunin byggði þó á „ennþá meiru en augað sér“. Hitinn, hávaðinn, titringurinn og hlaup undan hraunslettum bættu miklu við.
Sigurður Jarlsson og Þórhallur Hauksson við slippinn.
Þórhallur og Sigurður á rjúkandi ösku á eldstöðvunum.
Úr dagbók 1. febrúar:
Ég vaknaði laust eftir kl. 8 og voru menn þá að skríða á lappir. Báturinn sem var á brautinni var kominn á flot en annar bátur hafði fyllst af sjó og var dreginn upp aftur. Okkar var ekki þörf við að koma bátnum á flot og máttum við því fara að útvega okkur far í land. Okkur var boðið að fara með Heklu í land kl. 11 en við buðumst til að vinna í dag ef við kæmumst í land í kvöld. Var það þegið og skyldum við fara með Ægi kl. 20.
Fyrst vorum við látnir ryðja gjalli af nokkrum íbúðarhúsum en um hádegi fórum við að fórum við að ryðja þak þurrkhúss nálægt hrauninu nýja. Entist það til kl. 16. Eftir kaffið hvíldust margir okkar en ég og fleiri aðstoðuðum við lestun varnings í bát. Fyrir kl. 20 fórum við um borð í Ægi. Þá var farið að hvessa. Vegna veðurs var ekki lagt af stað strax og fórum við Siggi, Guðni og Þórólfur að spila í matsal háseta.
Óljósar fregnir bárust af áformi skipherra um brottför. Orðrómur barst um að tæpast þætti fært að leggja úr höfn í þessu veðri með skipið yfirfullt af dauðþreyttum landkröbbum. Ungir og hraustir menn þykjast færir í flestan sjó, bókstaflega, og þótti lítið úr sér gert. Ekki bætti úr skák þegar áhöfnin fór að binda ælu-fötur við handrið og aðrar festingar út um allt skip. Það átti eftir að koma í ljós að þar voru reyndir menn að verki.
Heimferðin
Úr dagbók 2. febrúar:
Okkur tók að syfja við spilin þegar leið á nóttina, en héldum þó áfram til kl. 2. Þá var haldið úr höfn í 10-11 vindstigum. Flestir urðu brátt sjóveikir og varð þá ömurlegt um að litast á göngum og í skotum þar sem menn sváfu á gólfinu svo vart varð gengið um vegna fólks og veltings. Kl. 6 vorum við við Þorlákshöfn en þar var ekki hægt að lenda. Því var siglt til Keflavíkur og lent þar kl. 11:30. Þaðan var farið með rútu til Reykjavíkur. Við Gulli fórum heim til Tóta þar sem bíllinn minn var. Við vorum furðuhressir eftir erfiða daga og ömurlega nótt.
Því verður ekki neitað að þessi nótt var erfið. Í skipinu hafa verið nokkur hundruð þreyttra björgunarmanna. Flestir voru sótugir og með ösku í hári og andliti. Erfitt var að ganga um því alls staðar lágu menn, jafnt á göngum sem annars staðar. Enda náðu ekki allir áfangastað á leið sinni að næstu ælufötu. Skipið valt mikið og runnu þá allir, sem ekki höfðu vafið sig utan um borðfætur eða annað jafngilt, um skipið þvert og endilangt. Mínúturnar til Þorlákshafnar voru taldar. Vitað var að skipið sigldi ekki á fullum hraða vegna veðurs. Vonbrigðin voru mikil þegar loksins var komið að Þorlákshöfn og fréttir bárust um að þar væri ekki hægt að lenda vegna öldugangs. Stefnan var tekin fyrir Reykjanes og til Keflavíkur. Þessa nótt fórst bátur frá Sandgerði út af Reykjanesi og sennilega sigldi Ægir eitthvað lengri leið en þurfti til að geta svipast um eftir björgunarbátum í leiðinni.
Eftirmáli
Úr dagbók 9. febrúar:
.. þó gat ég horft á sjónvarp í kvöld. Þar var rætt um höfn við Dyrhólaey því illa horfir um höfnina í Vestmannaeyjum. Síðustu daga hefur hraun runnið fram í átt að hafnargarðinum og er um 100 m frá. Höfnin hefur grynnkað. Hraunið hefur eyðilagt þurrkhúsið sem við ruddum af forðum. Einnig hefur það eyðilagt aðra vatnsleiðsluna og rafmagnsleiðsluna og er það mjög bagalegt. Í eyjum eru aðeins um 100 manns.